Krýna ehf.

Tannlæknastofa
kt: 450799-2389

Við hjá Krýnu leggjum okkur fram við að bjóða upp á þægilegt umhverfi og veita góða þjónustu.

Saga stofunnar

Áður en starfssemi Krýnu hófst að Grensásvegi 48 störfuðu þar fjórir tannlæknar: Gunnlaugur Þ. Ingvarsson (frá 1974), Halla Sigurjóns (frá 1978), Kristján H. Ingólfsson (frá 1980) og Trausti Sigurðsson (frá 1980). Þessir fjórir tannlæknar unnu til fjölda ára hver á sinni stofu og deildu sameiginlegri aðstöðu. Þegar Gunnlaugur hætti störfum sumarið 1999 tók Elín Sigurgeirsdóttir eigandi Krýnu við sjúklingum hans.

Halla Sigurjóns lést langt um aldur fram, hinn 31. mars 2002 og tók þá Elín við rekstri stofu hennar. Í mars 2006 keypti Krýna ehf allt húsnæðið og rekur þar tannlækningastarfssemi.

Halla Sigurjóns, tannlæknir móðir Elínar hafði mikinn metnað fyrir hönd starfsstéttar sinnar og var vakin og sofin um velferð sjúklinga sinna. Með það viðhorf að leiðarljósi lét hún tækifærin til aukinnar þekkingar ekki fram hjá sér fara. Það er einlægur vilji okkar sem störfum hjá Krýnu ehf að halda uppi aðalsmerki Höllu Sigurjóns. Minning hennar er og verður okkur hvatning til góðra verka.

Í uppahafi árs 2010 opnaði Krýna vel útbúið tannsmíðaverkstæði og þar starfar tannsmiður í fullu starfi.

Í janúar 2011 gerðist Guðrún Stefánsdóttir tannfræðingur meðeigandi að Krýnu enda hafa þær Elín unnið farsællega saman í um tvo áratugi.

Í byrjun árs 2018 kom Rúnar Vilhjálmsson tannlæknir inn sem meðeigandi Krýnu. Rúnar vann hjá Krýnu frá 2003-2006 en fluttist þá til Noregs. Hann kom aftur til Krýnu haustið 2016 og fögnuðum við komu hans.